MARKMIРSAMTAKANNA

Samtök um mannvæna tækni beita sér fyrir því að hönnun, þróun, og notkun tækni sé í samhljóm við grundvallarhagsmuni einstaklinga, náttúru og samfélags. Við fögnum þróun nýrrar tækni en krefjumst þess að leiðarljósið sé ávallt langtímavelferð fremur en skammtímahagnaður, og að einkahagsmunir víki fyrir almennri vellíðan og heilbrigði.

Grunnstefna

1

Við setjum andlega og líkamlega heilsu í forgang og leggjum áherslu á að lágmarka skaða. Þetta felur í sér að tryggja að tækni sé þróuð og notuð á hátt sem styður vellíðan notenda. Við hvetjum til þróunar og notkunar lausna sem eru ekki háðar auglýsingum, hámarksnýtingu á athygli notenda og söfnunar gagna um notendur til hagnaðar. Við hvetjum til reglugerða sem takmarka útsetningu fyrir skaðlegu stafrænu efni, svo sem ávanabindandi hönnun, rangfærslum og neteinelti. Við miðum að því að fræða almenning um áhrif tækni á andlega heilsu og vekja athygli á tækni sem hefur neikvæð áhrif.

2

Við stuðlum að heilbrigðum og réttlátum upplýsingakerfum með því að skapa stafrænt umhverfi þar sem upplýsingar eru áreiðanlegar, aðgengilegar og sanngjarnar. Við styðjum frumkvæði sem berst gegn rangfærslum, auðveldar það að rekja uppruna upplýsinga og eykur stafrænt læsi. Að auki krefjumst við gegnsæis í reikniritum sem safna og dreifa upplýsingum, auk þess sem við vinnum með fjölmiðla- og tæknifyrirtækjum til að tryggja sanngjarna birtingu og aðgang að upplýsingum fyrir alla samfélagshópa. Við hvetjum til lýðræðislegra ferla til að stjórna sameiginlegum upplýsingasvæðum okkar, frekar en að leyfa hagnaðardrifnum aðilum að setja reglurnar um hvernig við deilum upplýsingum.

3

Að virða rétt notenda til friðhelgi og fylgja siðferðilegum stöðlum í tækni er lykilatriði fyrir okkur. Við þróum og stuðlum að meginreglum um friðhelgi í hönnun tækni og hvetjum til strangra reglna um gagnavernd og ábyrga starfshætti við notkun gagna. Við leggjum áherslu á að fræða notendur um réttindi sín varðandi friðhelgi og hvernig þeir geta verndað persónulegar upplýsingar sínar.

4

Við leggjum áherslu á að minnka langtímaáhættur af skaðlegri tækni og vernda komandi kynslóðir gegn neikvæðum áhrifum hennar. Við hvetjum til varúðarráðstafana og reglugerða um tækni sem gæti valdið skaða til frambúðar, svo sem gervigreind, óendanleg tillöguforrit og erfðatækni. Við tökum þátt í opinberri umræðu um siðferðilegar afleiðingar framtíðartækni til að tryggja vernd komandi kynslóða.

5

Við skoðum áhrif tækni á náttúru og umhverfi og stuðlum að umhverfisvænni tækniþróun. Við viðurkennum að áhrif ómannúðlegrar tækni nái einnig til dýra- og plönturíkisins. Við styðjum því umhverfisvæna tæknihætti og notkun endurnýjanlegra auðlinda, hvetjum til að draga úr rafrænum úrgangi með endurvinnslu og sjálfbærri hönnun, og styðjum tækni sem tekur á umhverfisáskorunum, svo sem loftslagsbreytingum og tap á líffræðilegum fjölbreytileika.

6

Við stuðlum að þátttöku, réttlæti og jafnræði fyrir alla með því að vinna að því að brúa stafrænu gjána og tryggja aðgengi að tækni fyrir þá sem standa höllum fæti. Við hvetjum til inngildandi hönnunar sem tekur mið af þörfum allra notenda, þar á meðal þeirra sem eru með fatlanir, og styðjum stefnur og starfshætti sem tryggja réttláta þátttöku í stafrænu hagkerfi.

7

Við styðjum gegnsæja lýðræðislega ferla og aðgengi að gögnum með því að hvetja til opinna stjórnsýslugagna, auk þess sem við leggjum áherslu á að nota tækni til að auka borgaralega þátttöku. Við styðjum þróun tæknilausna sem auka gegnsæi í stjórnsýslu- og ákvarðanatökuferlum og ræðum notkun fjölþættrar tækni til að tryggja heiðarleika lýðræðislegra ferla.

8

Við styðjum skapandi tjáningu og frelsi til sjálfsmyndar í gegnum tækni. Við hvetjum til stefnumyndunnar sem verndar málfrelsi og tjáningarfrelsi á netinu og styðjum vettvanga og tækninýjungar sem gera það kleift að tjá sköpunargáfu og deila fjölbreyttum menningarlegum sjónarmiðum. Við vinnum gegn ritskoðun og styðjum rétt einstaklinga til að tjá sjálfsmynd sína frjálslega á stafrænum vettvangi. Við viðurkennum tilhneigingu til myndunar bergmálshella í stafrænum rýmum, og vinnum að því að hámarka fjölbreytni fremur en að ýta undir skautun.